Hlutverk Insúlíns

Fitubrennsla eða fitusöfnun?

Til þess að mannslíkaminn starfi vel þurfa samskipti milli ólíkra líkamshluta og líffæra að vera góð og áreiðanleg. Segjum sem svo að þú lendir í því óláni, í þínum daglega göngutúr að vetrarlagi, að ísbjörn verði á vegi þínum. Þú finnur hjartað slá hraðar og munnurinn þornar,  einbeitingin skerpist samhliða auknu blóðflæði til vöðvanna. Þökk sé þessum samskiptum augna, heila, taugafrumna, heiladinguls, nýrnahettna, æða og vöðva, svo eitthvað sé nefnt, færðu kraft og orku til að bjarga þér úr hættunni. 

Líkaminn notast við tvær meginleiðir til að koma skilaboðum á milli. Taugakerfi og hormón. Taugakerfið flytur mjög hröð skilaboð (sekúndubrot), eftir þar til gerðum frumum, oftast frá A til B. Áhrif hormóna koma aðeins seinna fram enda ferðast oftast sem skilaboð með blóðinu eftir æðum, en hafa víðtæk áhrif (frá A til B,C,D,...Ö). 

Insúlín er hormón og kemur frá litlu líffæri sem heitir bris og er staðsett í efri hluta kviðar. Hormónið er vel þekkt fyrir eiginleika sína að lækka blóðsykur. En þar sem insúlín er einmitt hormón er hlutverk þess margslungið. 

Skilaboðin (í formi insúlíns) berast um allan líkamann um að nú sé næring að koma í hús. En magn insúlíns í blóði er sveiflukennt. Hjá heilbrigðum einstaklingum, fastandi að morgni, mælist örlítið magn af insúlíni í blóðinu. Eftir fyrstu máltíð dagsins, eykst styrkur insúlíns margfallt í 1-2 klst. og fellur svo aftur niður í lágt gildi. Í hvert sinn sem við borðum er þetta ferli endurtekið. 

Insúlín stjórnar fituforðanum

Þegar orka/næring kemur inn í líkamann eru tvær leiðir í boði – að brenna orkunni strax eða geyma hana til síðari nota. Insúlín gegnir, meðal annars, því hlutverki að spara orkuna sem felst í næringunni, til þess að geta nýtt hana síðar. Líkaminn geymir orku í formi fituvefs. Með öðrum orðum má segja að seytun insúlíns hvetur fitusöfnun. 

Hér árum eða öldum áður kom sér vel að geta safnað varaforða fyrir veturinn, sem nýttist þegar erfiðara var að fá mat. Í dag er matvælaumhverfið mikið breytt. Við finnum lítið sem ekkert fyrir árstíðarsveiflum í matarframboði, né dagssveiflum ef út í það er farið.

  

Insúlín gegnir hlutverki dyrarvarðarins. Ef insúlín er hækkað í blóði, er líkaminn stilltur á að geyma næringu og mynda fituforða. Til þess að geta nýtt orkuna úr fituforðanum, þarf insúlín að lækka aftur niður í þetta örlitla grunnmagn. Við það losnar orkan frá fitufrumunum og fitubrennsla er hafin.

Insúlín er hormón sem á að koma í púlsum í tengslum við matartíma. Það á að lækka niður inn á milli máltíða til að leyfa frumum líkamans að ,,núllstillast“ svo að viðbragð við nýjum skammti af bris-insúlíni hafi góð og tilætluð áhrif. En frumur líkamans aðlagast vel og þegar insúlín er stöðugt hátt í blóði (t.d. borðum á 2 klst fresti kolvetnaríkan mat) hættir það virka eins vel. Það myndast þol eða viðnám. Brisið skynjar þetta og seytir út meira insúlíni næst, s.s. viðheldur og gerir viðnám frumnanna við insúlíni meira og meira. Á endanum hættir brisið að geta framleitt nægilegt magn, líklega vegna fitu sem safnast í brisinu. Þá fer blóðsykurinn loks að hækka. Ástandið kallast nú sykursýki 2. 

Þetta ferli tekur oft áratug(-i) að þróast. Áður en blóðsykurinn fer að hækka hafa oft margar aðrar breytingar átt sér stað. Í vísindasamfélaginu kallast þetta ástand nokkrum nöfnum, og getur verið ruglandi, en má í raun setja undir sama hatt. Á ensku er t.d. oft rætt um ,,insulin restistance" (ísl. insúlín viðnám) og ,,metabolic syndrome" (ísl. efnaskiptavilla).

 

Greiningarskilmerki efnaskiptavillu eru aukin kviðfita, hækkaður blóðþrýstingur, hækkuð blóðfita sem nefnast þríglýseríðar, lækkuð verndandi blóðfita að nafni HDL-kólesteról og væg blóðsykurshækkun mæld eftir föstu. Ef þremur af þessum 5 skilyrðum er mætt, kallast ástandið efnaskiptavilla og kallar á sömu nálgun og rætt er hér sem meðferð við sykursýki 2. 

 

Ef til vill það versta við sykursýki 2 eru fylgikvillarnir. Æðaskemmdir um allan líkama stuðla að nýrnabilun, sjónskerðingu/blindu, kransæðaskemmdum, sárum á útlimum að ónefndum skaðlegum áhrifum á æðar heilans. Þrátt fyrir fjölmörg lyf til að lækka blóðsykur, virðast þau ekki hafa tilætluð áhrif á að minnka tíðni fylgikvilla. Hvers vegna? Ástæðan er sú að fæst lyf snúa að orsök vandans, sem er of hátt insúlín í langan tíma. Insúlín viðnám veldur því að insúlínseytun er mikil og styrkur insúlíns helst hár í blóði í mun lengri tíma en hjá öðrum. Ofgnótt insúlíns er tengt fjölmörgum sjúkdómum, fyrir utan sykursýki 2, s.s. háum blóðþrýstingi, heilabilun og sumum krabbameinum. 

Þess vegna er þörf á annarri nálgun sem ræðst að uppruna og orsök sjúkdómsins. Markmiðið er ekki einungis að ná blóðsykrinum niður heldur að minnka seytun eða þörf fyrir insúlín. Þau matvæli sem hafa mest insúlínhvetjandi áhrif, hækka blóðsykur mest og  eru einmitt þau matvæli sem einstaklingar með sykursýki 2 ættu að forðast. Nokkurs konar óþol. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hingað til, þar sem þessari insúlínsparandi nálgun er beitt, sýna fram á mikinn árangur. Flestir geta minnkað lyfjanotkun mikið, sumir verða lausir við lyf og ná að halda sjúkdómnum í hlé. Því má segja að með réttri nálgun má halda niðri sykursýki 2 hjá mörgum. 

Mynd af heimasíðu Virta Health. 
 

Alvöru matur er lykillinn að bættum efnaskiptum. Með hugtakinu alvöru matur er átt við lítið unnin mat, næringarþéttan og mettandi. Dæmi um alvöru mat er hverskonar kjöt, fiskur/sjávarfang, fuglakjöt, egg, grænmeti, olífuolía, smjör, hrein jógúrt og ber. Til þess að draga úr blóðsykurshækkun og þar með minnka þörfina fyrir insúlín þarf að draga mikið úr sterkjuríkum mat og sykri (bæði náttúrúlegum og viðbættum). Sykur, sterkja og trefjar flokkast sem kolvetni eða á ensku ,,carbohydrates".  Trefjar eru góðar fyrir meltinguna og góðgerlana í þörmunum jafnframt sem þær frásogast ekki og valda því ekki blóðsykurshækkun. Spjótunum er því fremur beint að auðmeltanlegum kolvetnum, sterkju og sykri.

 

Sterkjuríkur matur er t.d. kornvörur (brauð, heilhveitibrauð, speltbrauð, súrdeigsbrauð, hrökkbrauð), pasta, hrísgrjón og kartöflur. Sykur er að finna í um 80% af tilbúnum vörum í matvörubúðum. Sykur í matvælum gengur undir ca. 50 mismunandi nöfnum og því er stundum sagt á umbúðum að enginn viðbættur sykur sé í vörunni - en ýmisskonar ávaxtaþykkni eru þá notuð í staðinn. Þykkni hafa jafn skemmandi áhrif á efnaskiptin og sykur. 

Eins og sést á myndinni hér að ofan, hafa prótein og fita mun minni áhrif á insúlín seytun. Eitt ber að nefna en það er varðandi fitur og olíur. Líkt og kolvetnin, þá eru sumar olíur verri en aðrar og ætti að takmarka mikið. Það eru helst svokallaðar jurtaolíur sem eru búnar til úr korni s.s. kornolía, sojaolía og sólblómaolía. Þessar olíur eru mikið unnar, næringalausar og innihalda hátt hlutfall bólguhvetjandi fitusýra (omega 6). 

© 2018 by MeðMat

  • Black Facebook Icon